Það má fara í fjölmenn partý, gleðjast með stórfjölskyldunni eða vinahópnum og óska fólki gleðilegs árs með kossi á kinn. Fólk getur jafnvel skellt sér á eina af þeim fjölmörgu brennum sem hlaðið verður í á höfuðborgarsvæðinu en tendrað verður í timbrinu á einum 13 stöðum í Reykjavík, Garðabæ og í Mosfellsbæ.
Svo eru það flugeldarnir. Blessaðir flugeldarnir. Þeir eru fallegir á næturhimninum og það er stemmning fólgin í því að skjóta upp en sitt sýnist hverjum um lætin sem verða í sprengingunum í kringum miðnætti. Dýr fælast, börn gráta, og eld- og slysahætta eykst margfalt. loftgæði versna einnig mikið.
Umhverfisstofnun hefur leitað leiða til þess að draga úr flugeldanotkun og hefur stofnunin til að mynda gefið út myndband á tiktok þar sem lagðar eru til nýjar leiðir til þess að fagna komu nýja ársins, enda séu flugeldarnir ekki aðalatriðið á þessum tímamótum heldur samvistir með fjölskyldu og vinum.
Stofnunin leggur til dæmis til að bara einn í fjölskyldunni kaupi flugelda en ekki margir, eða jafnvel að sleppa alveg flugeldunum og öskra frekar gamla árið inn í fortíðina.