„Yfir helgina og í gær var þetta fyrst og fremst í Mýrdalnum, sitt hvoru megin við Vík. Þar var talsvert mikið af fólki í vandræðum,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar í kvöldfréttum Stöðvar 2, spurður út í hvar flest verkefnin væru.
Að öllum líkindum höfðu flestir þeirra sem þurfti að sinna virt vegalokanir að vettugi, segir Jón Þór. „Vegurinn var lokaður en engu að síður var fullt af fólki þar sem þurfti að koma til aðstoðar.
Jón Þór bendir einnig á að björgunarsveitarfólk hafi ekki vald til þess að meina fólki aðgangi að lokuðum vegum.
„Lögreglan á Suðurlandi er eitthvað að skoða hvernig hægt væri að styrkja lokunarpóstana, því að framundan er ekkert sérstök spá og við þurfum að gera þetta almennilega svo að gestirnir okkar fari sér ekki að voða í aðstæðum sem þeir þekkja ekki.“
Landsbjörg fundaði í dag með almannavörnum til að fara yfir stöðuna.
„Það er talsverð snjókoma í kortunum, það gæti orðið skafrenningur á Grindavíkurvegi, Reykjanesbraut og Suðurlandi þannig við vorum bara að fara yfir það sem gæti verið í kortunum.“
Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg hafa björgunarsveitir um land allt sinnt 128 aðgerðum, samanborið við 40 í fyrra. Mest hefur mætt á sveitum á Suðurlandi, en nánast allar björgunarsveitir á landinu hafa komið að þessum verkefnum. Nærri 800 félagar björgunarsveita hafa verið við störf, langmest síðustu 10 daga, eða frá kvöldi 17. Desember.

