„Það er óhætt að segja það,“ sagði Logi, aðspurður að því hvort hann væri kominn með fiðring í mallakút eins og stjórnandi þáttarins, Arnar Daði Arnarsson, komst svo skemmtilega að orði.
„Ég byrjaði að lýsa stórmótum stuttu eftir að ég hætti. Síðasta stórmótið mitt var EM 2010 þegar við fengum bronsið og eftir það hef ég bara verið í sjónvarpinu öll stórmót síðan.“
„Ég finn bara núna að þetta er öðruvísi. Núna er tilfinningin í landinu eins og fyrir Ólympíuleikana í London. Við erum að fara á þetta heimsmeistaramót til að gera einhverja hluti og við erum bara bjartsýn. Við sjáum það bara að Norðmenn sem eru með lélegra lið en við að mínu mati, þeir eru að stefna á gullið. Við eigum bara að gera það líka.“
Þá vildi Arnar fá að heyra skoðun Loga á landsliðshópnum sem verður kynntur á morgun. Sjálfur var Arnar búinn að henda fram sínum pælingum á Twitter-síðu sinni þar sem hann veltir yfir sér ýmusm hlutum varðandi hópinn.
Gummi Gumm tilkynnir HM landsliðshópinn sinn á fimmtudaginn. Spurningarmerkin eru fá en þau eru þó nokkur.
— Arnar Daði (@arnardadi) December 20, 2022
A) Tekur hann 2 eða 3 markmenn?
B) Hákon Daði, Orri Freyr eða Stiven?
C) Donni eða Teitur?
D) Teitur eða Óðinn?
Það er 23 dagar í fyrsta leik Íslands á HM! #Handkastið
Logi tók sér góðan tíma í að velta þessu fyrir sér með Arnari, enda engar smá ákvarðanir sem Guðmundur Guðmundsson á fyrir höndum þegar kemur að því að velja landsliðshópinn. Logi var viss um að í hópnum yrðu þrír markmenn og ef hann væri í sætinu hans Gumma þá myndi hann taka Stiven Tobar Valencia með í staðinn fyrir Hákon Daða Styrmisson.
Þá átti Logi erfitt með að velja á milli manna á hægri vængnum, en umræðuna, sem hefst eftir 37 mínútur, má heyra í spilaranum hér fyrir neðan.