„Þann 22. desember fyrir 46 árum var ég látin laus úr gæsluvarðhaldi og núna er verið að láta mig lausa úr þessu máli,“ segir Erla í samtali við fréttastofu.
Líkt og greint var frá í dag hefur íslenska ríkið gert samkomulag við Erlu vegna gæsluvarðhalds sem hún sætti í tengslum við hvarf Guðmundar og Geirfinns. Erla fær 32 milljónir króna í miskabætur vegna 232 daga gæsluvarðhalds.
Samkvæmt samkomulaginu greiðir íslenska ríkið Erlu Bolladóttur miskabætur fyrir gæsluvarðhaldið á sama grundvelli og sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, sem síðar voru sýknaðir, voru dæmdar í Landsrétti, að því er segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Erla segist hafa frétt af samkomulaginu í dag, líkt og flestir. „Ég er enn svolítið dofin. Þetta er mikill og stór áfangi,“ segir Erla, sem lítur svo á að málinu sé nú formlega lokið.
Í yfirlýsingu forsætisráðherra biður Katrín Jakobsdóttir Erlu einnig afsökunar á þeirri meðferð sem hún mátti þola og afleiðingum hennar. Yfirlýsing Katrínar var hluti samkomulagsins.
Samkomulagið við Erlu Bolladóttur tekur eingöngu til gæsluvarðhalds vegna rannsóknar á hvarfi Geirfinns Einarssonar og nær ekki til dóms vegna rangra sakargifta enda stendur hann óhaggaður. Þann fjórtánda september síðastliðinn hafnaði Endurupptökudómur endurupptökubeiðni Erlu.