Körfubolti

Sá mikilvægasti í NBA fær nú Michael Jordan bikarinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nýi Michael Jordan bikarinn og Jordan sjálfur með MVP-bikarinn sem hann vann fimm sinnum á ferlinum.
Nýi Michael Jordan bikarinn og Jordan sjálfur með MVP-bikarinn sem hann vann fimm sinnum á ferlinum. AP/Andrew Kenney&Charles Bennett

NBA deildin í körfubolta hefur endurskírt leikmanna verðlaunin sín í höfuðið á gömlu goðsögnum úr deildinni og eftirsóttustu verðlaunin er nú örugglega Michael Jordan bikarinn.

Leikmenn sem eru hér eftir kosnir sem mikilvægasti leikmaður deildarinnar fá nú Michael Jordan bikarinn. Jordan var fimm sinnum kosinn sá mikilvægasti á fimmtán tímabilum sínum í deildinni en aðeins Kareem Abdul-Jabbar (sex) hefur fengið þau verðlaun oftar.

Nikola Jokic hjá Denver Nuggets, sem fékk þessi verðlaun í fyrra, mun fá fyrsta Michael Jordan bikarinn.

Besti varnarmaður deildarinnar fær Hakeem Olajuwon bikarinn. Olajuwon var níu sinnum valinn í varnarlið ársisn og var varnarmaður ársins 1993 og 1994.

Nýliði ársins fær Wilt Chamberlain bikarinn. Chamberlain skoraði 37,6 stig í leik á fyrsta ári sínu í deildinni og var ekki aðeins nýliði ársins heldur einnig sá mikilvægasti.

Besti sjötti maðurinn fær John Havlicek bikarinn.

Sá leikmaður sem bætir sig mest fær George Mikan.

Auk þess að endurskíra þekkt einstaklingsverðlaun deildarinnar þá bætir NBA einnig við einum nýjum verðlaunum.

Hér eftir verða Jerry West verðlaunin veitt fyrir þann leikmann sem var bestur á úrslitastund á tímabilinu, undir lokin í jöfnu leikjunum eða í brakinu eins og sumir segja. Verðlaunin heita á ensku Clutch Player of the Year.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×