Handbolti

„Varnarlega gátum við gert betur en mér er eiginlega alveg slétt sama“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sigursteinn Arndal gat leyft sér að fagna í leikslok.
Sigursteinn Arndal gat leyft sér að fagna í leikslok. Vísir/Hulda Margrét

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var að vonum ánægður eftir fimm marka sigur sinna mann gegn Selfyssingum í Olís-deild karla í handbolta í kvöld, 32-37. Hann segir að lokatölurnar gefi ekki rétta mynd af leiknum, enda var jafnt á öllum tölum fram á lokamínútur leiksins.

„Mér líður mjög vel eftir alla sigurleiki,“ sagði Sigursteinn eftir sigurinn á Selfossi í kvöld.

„En það er rétt, lokatölurnar segja ekki mikið til um leikinn því þetta var mjög erfiður leikur á móti góðu Selfossliði og það var hátt tempó fram og til baka. Varnarlega gátum við gert betur en mér er eiginlega alveg slétt sama þessa stundina.“

FH-ingar náðu í tvígang þriggja marka forskoti í síðari hálfleik, en áttu í miklum erfiðleikum með að slíta sig frá Selfyssingum.

„Ég veit ekki hvort það hafi farið um mig, en það var mjög erfitt að slíta þá frá okkur. Við vorum líka bara með unga útilínu sem gerði sín mistök, en ég er bara ofboðslega stoltur af þeim hvernig þeir kláruðu leikinn og sýndu þennan vilja sem þarf. Svo voru þeir bara eitursvalir á lokamínútunum.“

Þrátt fyrir að hafa leitt stærstan hluta leiksins byrjuðu FH-ingar leikinn ekki vel. Liðið lenti 4-0 undir og skoraði aðeins eitt mark úr uppstilltri sókn fyrstu tíu mínútur leiksins. Svo slæmt var það að Sigursteinn tók leikhlé eftir aðeins fjögurra mínútna leik.

„Við vorum bara hálf flatir og vorum ekki á hundrað eins og þarf að vera hérna á Selfossi. En sem betur fer bættum við í og uppskárum góðan sigur.“

FH-ingar fara í Garðabæinn næstkomandi mánudag þar sem liðið mætir Stjörnunni. FH og Stjarnan mættust í fyrstu umferð Olís-deildarinnar þar sem Garðbæingar unnu öruggan sigur og Sigursteinn segir að sínir menn ætli sér að hefna fyrir það.

„FH stefnir á sigur í öllum leikjum og nú fáum við viku til að ná okkur og undirbúa okkur hrikalega vel. Stjarnan er með frábært lið og við töpuðum fyrir þeim í fyrstu umferð þannig við eigum harma að hefna,“ sagði Sigursteinn Arndal að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×