Helgi ræddi við breska Retail Gazette um opnunina og framtíðaráform 66°Norður í Bretlandi.
Fram kemur að Bretar séu í meirihluta viðskiptavina í netverslun 66°Norður og þá segir Helgi að nýja verslunin á Regent Street muni færa London „hluta af Íslandi.“
Þá segir að opnun verslunarinnar á Regent Street sé á afar heppilegum tíma, þar sem útivistarfatnaður er tískutrend um þessar mundir auk þess kólnað hefur verulega í veðri.
„Við lítum á London og Bretland sem lykilmarkaði fyrir okkur. London er leiðandi á svo margan hátt þegar kemur að verslun og tísku,“ segir Helgi en hann vonar að 66°Norður komi til með að hafa langvarandi áhrif á verslunarumhverfið í London.
Greinarhöfundur tekur fram að fatnaðurinn í versluninni sé ekki ódýr, en sé þó gerður til að endast. Helgi segir íslenskt veðurfar eiga sinn þátt í gæðunum.
„Það er ekkert hægt að slaka á kröfunum þegar þú ert að búa til fatnað fyrir íslenska sjómenn og björgunarsveitarfólk. Efnið er það sem skilur að líf og dauða.“