Hvatningarverðlaunin voru veitt á Grand hóteli í Reykjavík í dag. Í tilkynningu frá ÖBÍ kemur fram að verkefnið „Gott aðgengi í ferðaþjónustu“ ýti undir þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks og stuðli að einu samfélagi fyrir alla.
Ferðamálastofa hafi með því stuðlað að nýrri nálgun og hugsunarhætti í ferðaþjónustu á landsvísu. Hún hafi haft frumkvæði að því að leiða saman ólíka aðila til samstarfs og tryggja þannig gæði verkefnisins.
„Gott aðgengi fyrir fatlað fólk leiðir af sér betra aðgengi fyrir alla. Aðgengi fyrir alla að ferðaþjónustu er mannréttindamál og ætti að vera hluti af ábyrgri starfsemi allra fyrirtækja,“ segir í tilkynningu ÖBÍ.