Eftir miklu er að slægjast í rekstri flugstöðvarinnar og tengdrar flugvallarstarfsemi með tugi milljarða í tekjur á hverju ári og milljarða í hagnað. Reksturinn er það öflugur að Isavia hefur getað staðið undir tugum milljaðra lána vegna stækkunar flugstöðvarinnar og endurbóta og uppbyggingar á Keflavíkurflugvelli án ríkisábyrgðar undanfarin ár.

Undantekningin var á covid árunum þegar ríkið jók hlutafé sitt í Isavia til að hægt væri að halda framkvæmdum áfram þegar tekjurnar hrundu tímabundið. Nýta þannig rólegheit á svæðinu og skapa atvinnu.

Þrír varaþingmenn Sjálfstæðisflokksins með Friðjón R. Friðjónsson sem fyrsta flutningsmann hafa ásamt tveimur þingmönnum flokksins lagt fram þingsályktunartillögu um einkavæðingu flugstöðvarinnar.
Fjármála- og efnahagsráðherra verði falið gera nauðsynlegar ráðstafanir svo að bjóða megi út rekstur, viðhald og uppbyggingu Isavia á Flugstöð Leifs Eiríkssonar, þ.m.t. rekstur verslana með tollfrjálsar vörur áflugvallarsvæðinu, starfsemi sem er í beinum tengslum við flugrekstur, rekstur flugvalla og flugstöðvar og aðra starfsemi sem nauðsynleg væri innan haftasvæðis flugverndar.

Er það á dagskrá þessarar ríkisstjórnar?
„Nei, það er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. Það er hins vegar ljóst að þingmenn ólíkra stjórnarflokka leggja fram ýmis mál um sín hugðarefni. En þetta er ekki á borði ríkisstjórnar,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Þar hafi málið ekki einu sinni verið rætt.
„Fríhöfnin hefur verið rekin af Isavia. Mín persónulega skoðun er að það fari best á því að svo verði áfram," segir forsætisráðherra.