Fótbolti

Ekkert klám og engar rafrettur

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn þýska landsliðsins eru mættir til Katar. Ekkert svínakjöt eða klámefni mátti leynast í ferðatöskum þeirra.
Leikmenn þýska landsliðsins eru mættir til Katar. Ekkert svínakjöt eða klámefni mátti leynast í ferðatöskum þeirra. Getty/Christian Charisius

Gestir á heimsmeistaramótinu í fótbolta í Katar geta ekki tekið með sér áfengi, klámefni eða svínakjöt. Þá hafa rafrettur verið bannaðar í landinu frá árinu 2014.

Um þetta fjallar þýski miðillinn Bild.de og vísar í ellefu blaðsíðna leiðbeiningabækling frá þýska sendiráðinu í Doha. Þar segir meðal annars:

„Innflutningur á áfengi, klámefni og trúarlegum bókum og efni er bannaður. Innflutningur svínakjöts er sömuleiðis ekki leyfður,“ en Katar er íhaldssamt múslimaríki. Öllu alvarlegra er þó til að mynda að fólki er mismunað eftir kyni og kynhneigð í landinu, sem FIFA valdi til að halda stærsta íþróttamót heims.

Gestir munu geta neytt áfengis á HM en katörsk yfirvöld gáfu leyfi fyrir því að bjór væri seldur á stuðningsmannasvæðum og leikvöngum mótsins, þó að mörgum þyki sopinn býsna dýr. Reyndar segir The Times að Katarar séu nú farnir að setja pressu á það að bjór verði eftir allt saman ekki seldur á leikvöngunum.

Bild segir að ekki aðeins sé klámefni bannað heldur vilji emírinn í Katar ekki heldur að unaðstæki séu flutt inn til landsins.

Ekki kemur fram hver hugsanleg refsing er fyrir brot á reglunum en Bild vitnar í Þjóðverja sem búa í Katar og segir að landamæraverðir taki til að mynda það áfengi sem þeir finni og helli því einfaldlega niður.

Reykingar eru leyfðar á ákveðnum svæðum en rafsígarettur hafa verið bannaðar frá árinu 2014. Brot gegn því banni getur varðað sekt upp á tæplega 400.000 krónur, og að hámarki þriggja mánaða fangelsi.

Í leiðbeiningunum frá þýska sendiráðinu er svo einnig varað við umferðarmenningunni í Katar þar sem bílum sé oft ekið hratt og með áhættusömum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×