Í tilkynningu frá Ferðamálastofu kemur fram að um þriðjungur brottfara í nýliðnum október hafi verið tilkominn vegna Bandaríkjamanna.
Brottfarir Íslendinga voru tæplega 72 þúsund í október en ekki hafa mælst jafn margar brottfarir í einum mánuðið það sem af er ári.
Flestar brottfarir í október voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna, um 52 þúsund talsins eða þriðjungur (32,7%) af heild. Bandaríkjamenn hafa verið fjölmennasta þjóðernið í októbermánuði frá 2016, að undanskildu faraldursárinu 2020.
Brottfarir Breta voru í öðru sæti, tæplega 25 þúsund talsins eða 15,6% af heild og brottfarir þjóðverja í því þriðja (5,8% af heild).Þar á eftir fylgdu Pólverjar (4,8% af heild), Danir (3,9%), Ítalir (2,7%), Spánverjar (2,6%), Frakkar (2,6%), Hollendingar (2,4%) og Kanadamenn (2,2%).
Brottfarir erlendra farþega frá áramótum
Frá áramótum hefur tæplega 1,5 milljón erlendra farþega farið frá Íslandi en á sama tíma í fyrra voru brottfarir þeirra ríflega hálf milljón. Enn er nokkuð langt í land að ná þeim fjölda brottfara sem var fyrir kórónaveirufaraldurinn en brottfarir voru tæplega 1,7 milljón talsins á tímabilinu janúar til október 2019, um 280 þúsund fleiri en í ár og um tvær milljónir talsins árið 2018 eða um 580 þúsund fleiri.