ÍBV tryggði sér sæti í 32-liða úrslitum Evrópubikarsins með mjög svo öruggum sigri á Donbas frá Úkraínu, 81-48 samanlagt. Þar áður hafði ÍBV sigrað Holan frá Ísrael.
Í 32-liða úrslitum Evrópubikarsins mætir ÍBV gamla stórliðinu Dukla Prag. Annar þjálfara liðsins er Michal Tonar sem lék með HK á síðasta áratug síðustu aldar.
Ef leikið verður heima og að heiman fara leikir ÍBV og Dukla Prag fram fyrstu og aðra helgina í desember. Eyjamenn eiga fyrri leikinn á heimavelli.
Dukla Prag sló Radnicki Kragujevac frá Serbíu og Handball Esch frá Lúxemborg út á leið sinni í 3. umferðina.