Alls voru átta ákærðir í málinu. Einn þeirra var sýknaður af héraðsdómi. Fram kemur í dómi héraðsdóms að fallið hafi verið frá ákæru á hendur móður eins mannanna, vegna veikinda hennar.
Karlmennirnir voru ýmist ákærðir fyrir svikin eða hlutdeild í þeim. Brotin ná allt aftur til ársins 2008.
Svikin fólust í því að blekkja starfsmenn Ábyrgðasjóðs launa til að samþykkja hinar ýmsu kröfur á þeim forsendum að um væri að ræða vangoldin laun vegna gjaldþrota fimm nafngreindra fyrirtækja. Það var gert með því að útbúa og undirrita ráðningarsamninga sem settir voru í innheimtu í gegn um stéttarfélög.
Grunsemdir vöknuðu
Í dómi héraðsdóms er rakið hvernig starfsmönnum Ábyrðasjóðs launa hafi farið að gruna að allt væri ekki með felldu í málum mannanna. Send var tilkynning til héraðssaksóknara árið 2016 um að einstaklingarnir hefðu reynt, og mögulega tekist, að hafa fé úr sjóðnum án þess að eiga kröfu til.
Við rannsókn sjóðsins styrktist sá grunur. Taldi sjóðurinn sig hafa ranglega greitt um tuttugu milljónir vegna málanna. Héraðssaksóknari hóf rannsókn á málinu og gaf að lokum út ákæru.
Í dómi héraðsdóms kemur fram að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sýna fram að sá einstaklingur sem sýknaður var hafi haft afskipti af kröfulýsingu sem send var í tiltekið þrotabú í hans nafni, sem varð grundvöllur kröfu í Ábyrgðasjóð launa.
Tveir sakborningana voru dæmdir í tíu mánaðaða fangelsi, einn í átta mánaða fangelsi en hinir þrír í sex mánaða fangelsi.
Dómarnir eru skilorðsbundnir þar sem héraðsdómur taldi að langt væri liðið frá því að brotin voru framin. Þó þurfa sexmenningarnir að greiða nokkrar milljónir hver í málsvarnalaun verjenda sinna.