Handbolti

Haukarnir hafa ekki fagnað sigri í Kaplakrika í sjötíu mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik FH og Hauka í Kaplakrika í fyrra. Það er alltaf hart barist þegar nágrannarnir mætast.
Frá leik FH og Hauka í Kaplakrika í fyrra. Það er alltaf hart barist þegar nágrannarnir mætast. Vísir/Vilhlem

Hafnarfjarðarslagurinn milli FH og Hauka fer fram í Kaplakrika í kvöld en þessir leikir eru oftast miklir baráttuleikir sama hver staða liðanna er í deildinni.

Liðin mætast nú í sjöttu umferð Olís deildar karla í handbolta en á meðan Haukarnir eru í fjórða sæti þá sitja FH-ingarnir í tíunda sæti deildarinnar.

Samkvæmt stöðu liðanna í deildinni og gengið það sem af er í vetur þá ætti núna að vera gullið tækifæri Hauka að vinna langþráðan sigur í leik liðanna í kvöld.

Haukarnir hafa nefnilega þurft að bíða lengi eftir því að vinna nágranna sína í FH á þeirra eigin heimavelli í Krikanum. Það hefur ekki gerst síðan 15. desember 2016 og síðan eru liðnir meira en sjötíu mánuðir.

Haukaliðið, þá undir stjórn Gunnar Magnússonar, núverandi þjálfara Aftureldingar, vann þá eins marks sigur á FH, 30-29. Halldór Jóhann Sigfússon þjálfaði þá FH-liðið en markahæsti leikmaður liðsins í þeim leik, Einar Rafn Eiðsson, spilar nú með KA.

Markahæsti maður Haukanna í þessum síðasta sigri þeirra, Janus Daði Smárason, hefur þannig verið í atvinnumennsku í fimm ár.

FH hefur unnið fjóra af síðustu sex leikjum liðanna í deild og bikar í Kaplakrika og hinir tveir hafa endað með jafntefli. FH vann báða leikina í fyrra fyrst með einu marki í bikarleik í september og svo með fjórum mörkum í deildarleik liðanna.

Á sama tíma hafa liðin mæst sex sinnum á Ásvöllum, liðin hafa bæði unnið tvo af þeim leikjum og tveir leikir hafa síðan endað með jafntefli.

Leikur FH og Hauka hefst klukkan 19.30 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.

  • Síðustu leikir FH og Hauka í Kaplakrika í deild og bikar:
  • Deild 1. desember 2021: FH vann með fjórum mörkum (28-24)
  • Bikar 9. september 2021: FH vann með einu marki (27-26)
  • Deild 15. febrúar 2021: Jafntefli (29-29)
  • Deild 1. febrúar 2020: FH vann með þremur mörkum (31-28)
  • Deild 10. desember 2018: Jafntefli (25-25)
  • Deild 18. desember 2017: FH vann með einu marki (30-29)
  • Deild 15. desember 2016: Haukar unnu með einu marki (30-29)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×