Uğur Şahin og Özlem Türeci, stofnendur þýska líftæknifyrirtækisins BioNTech, voru að vinna að þróun bóluefna gegn krabbameinum með svokallaðri mRNA tækni, þegar heimsfaraldur kórónuveirunnar braust út árið 2020.
Þau segja þróun bóluefnisins gegn Covid-19 hafa orðið til þess að hraða rannsóknum og uppgötvunum og þau séu vongóð um að á næstu árum verði komin á markað bóluefni gegn krabbameinum.
Hjónin sögðu í samtali við BBC um helgina að hægt væri að nota mRNA tæknina til að þjálfa ónæmiskerfið til að ráðast gegn krabbameinsfrumum, á sama hátt og það var þjálfað til að berjast gegn SARS-CoV-2.
Nokkur vinna er þó fyrir höndum þar sem prótín á yfirborði krabbameinsfruma eru mjög fjölbreytileg og það getur reynst erfitt að búa til bóluefni sem ræðst á allar krabbameinsfrumurnar en ekki heilbrigðar frumur líkamans.
Vísindamennirnir segjast gjalda varhug við því að halda því fram að þau séu við það að finna lækninguna við krabbameini en þeim sé að verða ágengt og þau muni halda áfram að vinna að rannsóknum sínum.
Prófanir eru hafnar á nokkrum bóluefna BioNTech.