Í A-riðli vann Arsenal nauman 1-0 útisigur gegn Alfons Sampsted og félögum í Bodø/Glimt. Bukayo Saka skoraði eina markið eftir klaufagang í vörn heimamanna. Arsenal er á toppi riðilsins með níu stig, þar á eftir kemur PSV með sjö en þessi lið eiga eftir að mætast þar sem leik þeirra var frestað. Bodø/Glimt er með fjögur stig Zürich er enn í leit að sínu fyrsta.
Í B-riðli eru Fenerbahçe og Rennes komin áfram eftir leiki kvöldsins en bæði lið eru með tíu stig og því enn óljóst hver vinnur riðilinn. AEK Larnaca er með þrjú stig í þriðja sæti á meðan Dynamo Kyiv er án stiga.
Í C-riðli mættust Roma og Real Betis í einum af stórleikjum kvöldsins, honum lauk með 1-1 jafntefli. Sergio Canales kom heimaliðinu yfir en Andrea Belotti jafnaði í síðari hálfleik. Það þýðir að Roma er sem stendur í þriðja sæti með fjögur stig á meðan Ludogorets Razgrad er í öðru sæti með sjö stig og Betis er á toppnum með 10 stig og komið áfram.
Royale Union frá Belgíu er komið upp úr D-riðli eftir 3-3 jafntefli við Braga í kvöld. Belgarnir eru með 10 stig, Braga með sjö þar á eftir og Union Berlín í þriðja sætinu með sex stig. Malmö rekur svo lestina án stiga.
Í E-riðli vann Manchester United 1-0 sigur á Omonia frá Kýpur á meðan Real Sociedad vann 3-0 sigur á Sheriff Tiraspol. Sociedad er komið áfram á meðan Man United lætur sig dreyma um að ná toppsætinu.
Í F-riðli eru öll liðin – Feyenoord, Midtjylland, Lazio og Sturm Graz - með fimm stig þegar fjórar umferðir eru búnar. Báðum leikjum kvöldsins lauk með 2-2 jafntefli. Feyenoord og Midtjylland mættust í Hollandi þar sem Elías Rafn Ólafsson sat allan tímann á bekk gestanna. Lazio og Sturm Graz gerðu svo jafntefli á Ítalíu.
Í G-riðli er Freiburg komið áfram eftir 4-0 sigur á Nantes í kvöld. Freiburg er með 12 stig, Qarabag með sjö, Nantes þrjú og Olympiacos á botninum með eitt stig. Ögmundur Kristinsson var ekki í leikmannahóp Olympiacos þó aðalmarkvörður liðsins væri meiddur.
SCENES #UEL pic.twitter.com/i8J70GCdl5
— UEFA Europa League (@EuropaLeague) October 13, 2022
Í H-riðli vann Trabzonspor óvæntan 4-0 sigur á Monaco. Bæði lið eru með sex stig en Ferencvárosi er á toppnum með níu stig í fyrsta sæti á meðan Rauða Stjarnan er á botni riðilsins með þrjú stig.