Ráðstefnan samanstendur af þremur málstofum þar sem sjónum er beint að nokkrum af þeim lykilþemum sem skoðuð verða af RECLAIM rannsóknarteyminu. Það eru hlutverk fjölmiðla, tækniáhrif og utanaðkomandi áskoranir og þau tækifæri sem búa í auknu fjölmiðlalælsi og borgaravitund þegar kemur að því að draga úr áhrifum upplýsingaóreiðu á lýðræði í Evrópu í dag.
RECLAIM er rannsóknarverkefni sem hlaut nýverið þriggja milljóna evra styrk, eða um 420 milljónir króna, úr Horizon Europe áætlun Evrópusambandsins. Verkefninu er ætlað að koma fram með nýjar skilgreiningar og aðferðir til að greina hin víðtæku og ólíku áhrif sme upplýsingaóreiða hefur á lýðræði í dag.
Markmiðið með verkefninu er að greina stöðu upplýsingaóreiðu í Evrópu og nýta niðurstöðurnar til ráðlegginga um stefnumótun, fræðslu og aðgerðir til að sporna gegn neikvæðum afleiðingum upplýsingaóreiðu fyrir lýðræðislega umræðu og grunnstoðir frjálslynds lýðræðis í nútímasamfélagi.
Alþjóðamálastofnun heldur utan um verkefnið en Maximilian Conrad, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, leiðir það.
