Fréttastofa Reuters hefur þetta eftir rússnesku fréttastofunni Interfax. Leyniþjónustan sagði í yfirlýsingu í morgun að úkraínska leyniþjónustan og Kyrylo Budanov, stjórnandi hennar, hafi skipulagt sprenginguna. Úkraínsk stjórnvöld hafa ekki lýst yfir ábyrgð á sprengingunni formlega en nokkrir úkrínskir embættismenn hafa fagnað sprengingunni og ýjað að ábyrgð Úkraínu.
Hluti brúarinnar skemmdist í sprengingunni og stöðvaði umferð tímabundið. Þá urðu skemmdir á lest, sem var á leið yfir brúna í átt að Krímskaga, en eldur kviknaði í nokkrum eldsneytisvögnum í lestinni.
Brúin hefur verið álitin eins konar táknmynd hernáms Rússa á Krímskaga en hún er eina tenging skagans við meginland Rússlands. Þá hefur hún verið sérstaklega mikilvæg hersveitum Rússlands í Úkraínu en birgðum hefur verið komið til þeirra yfir brúna. Rússar þurfa nú að senda birgðir til hermanna sinna landleiðina.
Brúin var tekin í notkun árið 2018, fjórum árum eftir að Rússland hernam Krímskaga. Bygging brúarinnar var fyrirskipuð af Vladimír Pútín sjálfum og hann vígði hana til notkunar á sínum tíma.
Í kjölfar sprengingarinnar á brúnni sýttu Rússar verulega í hernaðaraðgerðir sínar í Úkraínu og hafa gert fjölda loftárása á úkraínskar borgir. Minnst nítján hafa látist og meira en hundrað særðust.