Handbolti

Valur byrjar Evrópudeildina á heimavelli og fyrsti útileikurinn verður á Benidorm

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Valur tekur á móti Ferencváros í fyrstu umferð Evrópudeildarinnar í handbolta í lok mánaðar.
Valur tekur á móti Ferencváros í fyrstu umferð Evrópudeildarinnar í handbolta í lok mánaðar. Vísir/Hulda Margrét

Leikjadagskrá riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handbolta var birt fyrr í dag þar sem Íslandsmeistarar Vals verða í eldlínunni í B-riðli. Liðið hefur leik á heimavelli gegn ungverska liðinu Ferencváros þann 25. október næstkomandi.

Riðlakeppnin fer einmitt af stað þann dag, en henni lýkur rúmum fjórum mánuðum síðar, þann 28. febrúar á næsta ári. Sex lið eru í riðlinum, en ásamt Val og Ferencváros eru spænska liðið Benidorm, þýska liðið Flensburg, franska liðið PAUC og sænska liðið Ystads.

Fyrsti útileikur Vals verður svo á einum vinsælasta ferðamannastað Íslendinga seinustu áratugi, Benidorm. Valur sækir Benidorm heim þann 1. nóvember.

Þar á eftir koma svo tveir leikir í röð gegn Íslendingaliðunum í riðlinum. Teitur Örn Einarsson og félagar hans í þýska stórliðinu Flensburg mæta í Origo-höllina þann 22. nóvember og Kristján Örn Kristjánsson og félagar hans í franska liðinu PAUC taka á móti liðinu viku síðar.

Alls eru fjögur lið sem fara upp úr þessum sex liða riðli og möguleikar Vals verða því að teljast nokkuð góðir. Seinasti leikur Vals í riðlakeppninni er útileikur gegn sænska liðinu Ystads þann 28. febrúar á næsta ári og miðað við styrkleika liðanna í riðlinum gæti vel farið svo að það verði úrslitaleikur um sæti upp úr riðlinum.

Leikir Vals í riðlakeppninni

25. október: Valur - Ferencváros 

1. nóvember: Bendidorm - Valur 

22. nóvember: Valur - Flensburg-Handewitt 

29. nóvember: PAUC - Valur 

6. desember: FTC (Ferencváros) - Valur 

13. desember: Valur - Ystads IF 

7. febrúar: Flensburg-Handewitt - Valur

14. febrúar: Valur - Benidorm

21. febrúar: Valur - PAUC

28. febrúar: Ystatds IF HF - Valur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×