Úkraínumenn hafa fagnað sprengingunni og í gærmorgun mátti heyra íbúa Kænugarðs hrópa húrra fyrir skemmdarverkunum sem voru unnin á brúnni. Úkraínskir embættismenn hafa ýjað að því að þeir beri ábyrgð á sprengingunni en hafa ekki lýst því yfir opinberlega. Rússar hafa þá ekki sakað Úkraínumenn um að bera ábyrgð.
Varaforsætisráðherra Rússlands Marat Khusnullin sagði í gærkvöldi að kafarar muni hefja störf núna í morgunsárið til að kanna hvort einhverjar skemmdir hafi orðið á burðarstólpum brúarinnar. Þá verður ástand hennar auk þess rannsakað ofansjávar og á verkið að klárast í dag.

Að sögn Khusnullin eru mánaðareldsneytisbirgðir á Krímskaga og tveggja vikna matarbirgðir. Þá hefur varnarmálaráðherra Rússlands lýst því yfir að hægt sé að koma birgðum til hersveitanna í suðurhluta Rússlands land- og sjóleiðina.
Rússland hernam Krímskaga árið 2014 en brúin, sem tengir Krímskaga við Rússland, var tekin í notkun árið 2018.
Allt bendir til að bifreið, sem var að fara yfir brúna, hafi sprungið og hafi verið svo nálægt lestarvögnum, sem innihéldu eldsneyti, að eldur hafi borist í þá og eldsneytið orðið til stærri sprenginga og meiri skemmda. Rússar lýstu því yfir í gær að þrír hafi fallið í sprengingunni.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti fyrirskipaði í gær aukið eftirlit og vernd fyrir brúna og þá innviði sem tryggja flutning rafmagns og gas til rímskagans. Þá fyrirskipaði hann að sprengingin yrði rannsökuð.