Á hverjum degi kemur fjöldi fólks í húsnæðis Hjálpræðishersins til að fá sér hádegismat og spjalla. Á meðal þeirra er þrjú systkini á aldrinum átta til tíu ára frá Kólumbíu sem komu til Íslands ásamt foreldrum sínum í von um betra líf. Flestir dagar eru frekar svipaðir hjá þeim en þau dreymir um að komast inn í skóla hér á landi og kynnast jafnöldrum sínum.
„Það er rúmlega þrjú hundruð manns sem kemur og borðar á hverjum virkum degi og núna 10% af þeim sem að fá ekki leyfi eða pláss í skólanum,“ segir Ester Ellen Nelson prestur hjá Hjálpræðishernum.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun, sem tekur þátt í móttöku flóttamanna, eru hátt í fimmtíu börn í þessari stöðu skráð hjá þeim. Um helmingur hefur beðið stutt eða innan við fjórar vikur en sum þeirra lengur. Börnin eru þó fleiri hér á landi því þegar börnin fá dvalarleyfi færist mál þeirra yfir til sveitarfélaganna og þar eru líka börn sem bíða. Í reglugerð um útlendinga er fjallað um menntun barna í leit að alþjóðlegri vernd. Þar er sagt að tryggja eigi þeim menntun og að leitast skuli við að þau séu komin í skóla innan 12 vikna frá umsókn um alþjóðlega vernd. Dæmi eru þó um að slíkt takist ekki alltaf.
Ester segist til að mynda hafa rætt við unglinga um daginn sem voru að bíða eftir að fá boð um skólavist. Fjölskylda þeirra hafði þá verið hér á landi í sjö mánuði. Fjölskyldunni var fyrst sagt að skólavistin strandaði á því að þau væru ekki komnir með kennitölu. Þegar hún var svo komin var þeim sagt að þau þyrftu að vera komin með íbúð.
Þannig upplifa sumir í þessari stöðu að kerfið sé flókið og erfitt að leita sér upplýsinga. Þeirra á meðal er þriggja manna fjölskylda frá Venesúela en átta ára dóttir þeirra segir flesta daga eins.
„Eftir að ég vakna fer ég í bað og reyni svo á hverjum degi að leika mér með vinum mínum,“ segir Abby Rodriguez.
Þá hafa sum barnanna fengið að mæta á íþróttaæfingar. Þrátt fyrir að komast ekki í skóla eru börnin flest nokkuð hrifin af Íslandi.
„Mér líkar við Ísland því það er fallegur staður og falleg mannlíf og á daginn fæ ég að spila fótbolta,“ Rodrigo Galeno.