Breskir fjölmiðlar fara svo langt að nefna viðureignina ‘El Sackio‘ sem mætti lauslega þýða sem „Sá sem mun taka poka sinn.“ Er þetta ekki í fyrsta skipti sem viðureign tveggja knattspyrnustjóra fær þetta viðurnefni í breskum fjölmiðlum en leikur Manchester United og Tottenham í október 2021 fékk sama viðurnefni. Þá var Ole Gunnar Solskjær að stýra Manchester United og Nuno Espirito Santo var knattspyrnustjóri Tottenham. United vann 3-0 og Santo missti starfið sitt í kjölfarið.
Eftir jafntefli gegn Brentford í fyrstu umferð hefur Leicester City tapað síðustu sex leikjum í röð sem gerir að verkum að liðið er í neðsta sæti deildarinnar með aðeins eitt stig. Leicester hefur ekki byrjað leiktímabil í efstu deild jafn illa frá árinu 1983 og pressan er því mikill á Brendan Rodgers, knattspyrnustjóra Leicester.
Aiyawatt Srivaddhanaprabha, eigandi Leicester City, hefur boðað komu sína á leikinn í kvöld en það verður í fyrsta skipti síðan í ágúst að Srivaddhanaprabha mætir á leikvöllinn. Einhverjir telja viðveru Srivaddhanaprabha þýða að Rodgers fái sparkið í leikslok ef illa fer.
Steve Cooper er knattspyrnustjóri Nottingham Forest. Þrátt fyrir að Cooper tók við Forest er liðið var í botnsæti næst efstu deildar fyrir rúmlega ári síðan og tókst að koma liðinu upp í úrvalsdeildina eftir 23 ára fjarveru, þá hefur sæti Cooper hitnað gífurlega það sem af er á þessu leiktímabili.
Nottingham Forest eyddi u.þ.b. 150 milljónum punda í sumar í 22 nýja leikmenn og stefnan var sett á að halda sæti sínu í deild þeirra bestu. Liðið er hins vegar í 19. og næst neðsta sæti með fjögur stig eftir sjö umferðir, sem þykir ekki ásættanlegur árangur. Sigur í kvöld myndi þó lyfta Forest upp úr fallsæti.
Í þokkabót er viðureign Leicester og Forest nágrannaslagur sem hvorugt lið má tapa í almennu árferð. Það eru ekki nema tæpir 40 km á milli Leicester og Nottingham sem eykur enn meira á mikilvægi leiksins í kvöld sem hefst á slaginu 19.00.