„Nýja haustneglan eftir okkur @auduraudur er lent. Risa þakklæti á Auður fyrir hæfileikana og drifkraftinn,“ skrifar Jón Jónsson á Instagram síðu sinni þar sem hann greinir frá útgáfu lagsins.
Þeir Jón Jónsson og Auður eru báðir titlaðir sem höfundar lagsins. Auður sá um framleiðslu, hljóðfæraleik og strengjaútsetningu. Söngur og gítarleikur var í höndum Jóns.
Aðrir hljóðfæraleikarar eru Ellert Björgvin Schram sem spilar á píanó og Margrét Árnadóttir sem leikur á selló. Addi 800 sá um hljóðvinnslu.
Auður hafði ekki gefið út nýja tónlist síðan hann steig til hliðar frá uppsetningu Rómeó og Júlíu í júní á síðasta ári í kjölfar ásakana um ofbeldi. Hann sendi þá frá sér yfirlýsingu og játaði að hafa farið yfir mörk konu, líkt og fjallað hefur verið um hér á Vísi.
Í síðustu viku gaf Auður svo út lagið Tárin falla hægt ásamt tónlistarmanninum Bubba Morthens. Lagið situr í fyrsta sæti á íslenska vinsældarlistanum á streymisveitunni Spotify.