Dauði Möhsu Amini, 22 ára gamallar kúrdískrar konu, í haldi siðgæðislögregluna í Teheran varð kveikjan að mestu mótmælum í landinu frá árinu 2019. Hún var stöðvuð fyrir að virða ekki strangar reglur um klæðaburð kvenna. Konur hafa meðal annars brennt höfuðklúta sína og klippt hár sitt á meðan mótmælendur kyrja slagorð um dauða harðstjórans Ali Khamenei, æðstaklerks og æðsta leiðtoga landsins.
Að minnsta kosti 41 hefur látist í mótmælunum og hundruð aðgerðasinna og fréttamanna hafa verið handtekin, að sögn íranskra ríkisfjölmiðla. Írönsk mannréttindasamtök telja mannfallið enn meira, 76 mótmælendur á ellefu dögum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Fréttaritari Financial Times í Íran segir að undanfarna daga hafi hvítir og grænir sendiferðabílar sem siðgæðislögreglan notar við eftirlit með borgurunum horfið af götum höfuðborgarinnar Teheran. Þeir sjáist ekki einu sinni lengur fyrir utan höfuðstöðvar lögreglunnar í miðborginni.
Saeed Laylaz, sérfræðingur í umbótum í Íran, segir blaðinu að siðgæðislögreglan verði að líkindum ekki lengur á götum landsins. Stjórnvöld muni ekki hafa um annað að velja en að veita ungu miðstéttarfólki í borgum landsins meira frelsi.
Ekki er þó búist við því að írönsk stjórnvöld afnemi lögbundna skyldu kvenna til þess að ganga með hijab-andlitsslæðu.