Stjórnvöld í Rússlandi eru talin munu nýta atkvæðagreiðslunar sem réttlætingu fyrir innlimun á landsvæðunum, með svipuðum hætti og gert var með Krímskaga árið 2014.
Úkraínsk stjórnvöld og bandamenn þeirra hafa fordæmt atkvæðagreiðslunar, segja ekkert að marka þær og sagt þær vera uppgerð.
Atkvæðagreiðslunar fóru fram í héruðum Donetsk, Luhansk, Kherson og Zaporizhzhia í austur- og suðausturhluta Úkraínu.
Í frétt BBC segir að flóttafólk sem dreift sé víða um Rússland, meðal annars á Krímskaga, hafi einnig staðið til boða að kjósa í atkvæðagreiðslunni. Um fjórar milljónir manna eru sögð hafa staðið til boða að kjósa, en héruðin fjögur ná samanlagt yfir um fimmtán prósent landsvæðis Úkraínu.
Fréttaveitur, sem reknar eru af stjórnum aðskilnaðarsinna í Donetsk og Luhansk segja nú frá því að allt að 99,23 prósent atkvæða hafi verið greidd með því að heyra undir Rússlandi.
Því hefur verið velt upp að Vladimír Pútín Rússlandsforseti muni tilkynna um innlimun héraðanna fjögurra í ræðu á rússneska þinginu á föstudaginn. Árið 2014 tilkynnti Pútín um innlimun Rússa á Krímskaga í ræðu fáeinum dögum eftir að sambærileg þjóðaratkvæðagreiðsla var haldin þar.