Blaðamaður Reuters sagði fyrr í dag að vitni sögðu einhver lík hafa verið með reipi um hálsinn og að fleiri en einn hefði verið með bundnar hendur.
Yfirmaður lögreglunnar í Úkraínu sagði í dag að búið væri að finna minnst 445 grafir nærri Izyum, eftir að rússneskir hermenn flúðu þaðan í síðustu viku og segja Úkraínumenn þetta til marks um stríðsglæpi Rússa.
Ihor Klymenko, áðurnefndur yfirmaður lögreglunnar, sagði blaðamönnum í dag að talið væri að úkraínskir hermenn væru meðal þeirra í gröfunum. Af þeim líkum sem búið væri að grafa upp væri þó ekki einn hermaður.
Reuters fréttaveitan hefur líka eftir honum að um fimmtíu lík óbreyttra borgara hefðu fundist annarsstaðar í Kharkív en hann fór þó ekki nánar út í það.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir allan heiminn þurfa að sjá hvað Rússar, sem hann kallar morðingja og pyntara, skilja eftir sig í Úkraínu.
„Rússa skilur bara eftir sig dauða og þjáningu. Morðingjar. Pyntarar,“ sagði Selenskí. Hann sagði Rússa skorta það sem gerði þá mennska og hét hefndum. Fyrir hvern einasta Úkraínumann sem þeir hefðu myrt og fyrir hverja þjáða sál.
Þegar lík eru grafin upp leita rannsakendur á þeim, af einhverju sem hægt væri að nota til að bera kennsl á þau. Annars eru sýni tekin af þeim og þeim komið fyrir í líkpokum.
AP fréttaveitan hefur eftir fólki á staðnum að ein gröfin sé merkt á þann veg að í henni liggi sautján úkraínskir hermenn.
Einn íbúi sagði fréttaveitunni að í gröfunum væri mikið af fólki sem hefði dáið í loftárásum Rússa á Izyum fyrr á árinu. Um væri að ræða mikinn fjölda fullorðinna og barna.
Af um 47 þúsund íbúum fyrir innrásina eru um tíu þúsund sagðir búa enn í Izyum. Aðrir hafa flúið eða dáið.