Körfubolti

Isabella aftur í Breiðablik

Atli Arason skrifar
Isabella Ósk í leik með Breiðabliki á síðasta leiktímabili.
Isabella Ósk í leik með Breiðabliki á síðasta leiktímabili. Vísir/Bára Dröfn

Breiðablik tilkynnti í dag að félagið hefði endursamið við Isabellu Ósk Sigurðardóttur og mun hún leika með Blikum á komandi tímabili í Subway-deild kvenna.

Isabella lék með Breiðablik í Subway-deildinni á síðasta tímabili þar sem hún skoraði 14,4 stig, tók 13,8 fráköst og gaf 2,4 stoðsendingar að meðaltali á leik

Í lok síðasta leiktímabils á Íslandi skipti Isabella yfir til South Adelaide Panthers í Ástralíu þar sem hún spilaði í sumar við góðan orðstír. Eftir að fregnir bárust að hún ætlaði að koma aftur til Íslands í vetur fóru öll helstu lið deildarinnar að sækjast eftir kröftum hennar en nú hefur fengist staðfest að hún valdi að leika fyrir Kópavogsfélagið á næsta leiktímabili.

„Það voru mörg lið á eftir þessum frábæra leikmanni og því er það mikið ánægjuefni fyrir okkur í Breiðablik að hún hafi valið að halda áfram að spila með uppeldisklúbbnum. Isabella hefur verið frábær síðustu ár með Breiðablik þó svo að erfið meiðsli hafi sett strik í reikninginn hjá henni, en með Isabellu inn á hefur lið Breiðabliks sýnt að það getur unnið öll lið deildarinnar,“ er skrifað í tilkynningu Breiðabliks um komu Isabellu í Kópavoginn.

Fyrsti leikur Breiðabliks á komandi tímabili er þann 20. september þegar liðið fer í heimsókn til Vals á Hlíðarenda.

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir

Isabella: Spila á Íslandi næsta tímabil

Isabella Ósk Sigurðardóttir, leikmaður South Adelaide Panthers í Ástralíu, segist vera á heimleið í haust til að leika í Subway-deildinni, þegar leiktímabilið í Ástralíu klárast.

Isabella hefur leikið sinn síðasta leik í Ástralíu

Isabella Ósk Sigurðardóttir, leikmaður South Adelaide Panthers, hefur leikið sinn síðasta leik í Ástralíu, a.m.k. í bili. Isabella og liðsfélagar hennar töpuðu í morgun gegn Sturt í undanúrslitum NBL1 deildarinnar, 74-70.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×