Kjarnorkumálastofnun Úkraínu tilkynnti þetta í gærkvöldi en að sögn stofnunarinnar tókst henni að slökkva á rafafli sem hélt verinu gangandi klukkan 3:40 í fyrrinótt að úkraínskum tíma. Nú er verið að undirbúa að kæla ofnana.
Yfirvöld í Kænugarði hvöttu íbúa á svæðinu í kring um kjarnorkuverið að yfirgefa heimili sín fyrir eigin öryggi. Mikil átök hafa geisað í kring um kjarnorkuverið og hafa bæði úkraínsk og rússnesk stjórnvöld sakað hver önnur um að halda úti stórskotaárásum við kjarnorkuverið. Skemmst er að segja frá því að yrði kjarnorkuverið fyrir árás gæti það leitt til hræðilegs kjarnorkuslyss.
Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti hefur kallað eftir því að kjarnorkuverið og svæðið þar í kring verði hlutlaust svæði og átök verði bönnuð af öryggisástæðum.
Kjarnorkumálastofnun Úkraínu sagði í tilkynningunni í gær að henni hafi tekist að tengja kjarnorkuverið aftur við úkraínskt raforkukerfi, svo stofnunin gæti stjórnað því að nýju.
Kjarnorkuverið hefur þegar orðið fyrir talsverðu hnjaski vegna árása í nágrenninu og er byggingin ekki sögð jafn örugg og hún ætti að vera.