Sigríður Þóra Árdal, sem er grafískur hönnuður og Bergsteinn Björgúlfsson, margverðlaunaður kvikmyndagerðamaður hafa komið sér vel fyrir í sveitasælunni í Rangárþingi ytra, eða nánar tiltekið á bænum Hrúti í Ásahreppi.
Þau ákváðu að fara að rækta hamp og árangurinn lætur ekki á sér standa, plönturnar hafa vaxið vel en blómin af kvenplöntunni eru týnd og þannig hægt að búa til olíur og te af henni svo eitthvað sé nefnt.
“Þetta er karlplantan og þetta er kvenplantan og eini tilgangur karlplöntunnar er að frjóvga kvenplöntuna. Þegar hún er búin að því þá sölnar karlplantan og deyr. Þá fer kvenplantan að mynda fræ,” segir Bergsteinn.

“Þetta er dásamlegt og ótrúlegt að sama skapi,” segir Sigríður Þóra en þau Bergsteinn bjóða nú áhugasömum að koma í sveitina og tína sinn eigin hamp.
“Já, ég kynntist þessu þegar ég bjó, sem krakki í Bandaríkjunum að fara á svona sveitabæi og tína bláber , jarðarber og epli og ég man hvað mér fannst það yndislegt og við höfum sannarlega upp á nóg að bjóða hér á Hrúti, þannig að þetta er bara sjálfgefið.”
Sigríður Þóra segir að nú þegar hafi komið töluvert af fólki og allir séu mjög ánægðir með framtakið og hafi gaman af því að vera í akrinum að tína blómin og síðan sé borgað eftir vigt eitthvað smotterí.

Bergsteinn segir hamp ótrúlega plöntu.
“Það er hægt að búa til úr þessu steypu, einangrun, parket, olíur og te. Svo á sama tíma þá erum við að hreinsa koltvísýrning úr umhverfinu vegna þess að hampurinn, er sú planta, sem vinnur hvað mestan koltvísýring úr andrúmsloftinu vegna þess að hann vex svo hratt, þetta er svo mikill lífmassi, sem verður til á svo stuttum tíma,” segir Bergsteinn.
