Jarðskjálftahrinan hófst hinn 8. september síðastliðinn og hafa rúmlega 4000 skjálftar mælst í hrinunni. Stærsti skjálftinn mældist fyrir tveimur dögum síðan og var hann 4,9 að stærð.
Kristín Elísa Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að jarðskjálftahrinur á þessu svæði séu mjög þekktar.
„Það er brotabelti þarna sem liggur fram hjá og kallast Grímseyjarbeltið og þetta eru jarðskjálftahrinur sem verða út af flekahreyfingum,“ segir Kristín Elísa.
Síðast varð stór jarðskjálftahrina á svæðinu árið 2018 og sú fjaraði smám saman út. Hið sama átti sér stað árið 2013.
„Það er alltaf aukin hætta á því í svona hrinum að það komi stærri skjálftar þannig að það er ekki útilokað að það komi stærri skjálftar. Í hrinunni 2018 þá komu skjálftar sem voru yfir fimm að stærð, þannig að það geta alveg komið stærri skjálftar - það er alveg þekkt í hrinum á þessu svæði,“ segir Kristín Elísa.

Hún segir brýnt að fólk rifji reglulega upp viðbrögð við jarðskjálftum en leiðbeiningar má nálgast á vefsíðu Almannavarna.
Þar segir meðal annars að ekki eigi að stilla þungum munum ofarlega í hillur eða á veggi og fyrirbyggja að skápar, málverk og þungir munir geti fallið á svefnstaði.