Ýmsir aðilar hafa reynt að kúga fé af Pogba, meðal annars eldri bróðir hans, Mathias. Hann hefur hótað því að afhjúpa ýmsar viðkvæmar upplýsingar um líf bróður síns ef hann fær ekki ákveðna upphæð.
Mathias hefur meðal annars greint frá því að Paul hafi leitað til töfralæknis og fengið hann til að leggja bölvun á Kylian Mbappé, samherja hans í franska landsliðinu.
Paul þvertekur fyrir það en viðurkennir að hafa leitað til töfralæknis til að fá hann til að hjálpa góðgerðarsamtökum í Afríku.
Nasri, sem lagði skóna á hilluna í fyrra, er múslimi líkt og Pogba og segir að svona geri þeir ekki.
„Þetta gengur ekki upp. Ef þú þarft vernd eða hjálp leitarðu til guðs, ekki töfralæknis,“ sagði Nasri sem lék 41 landsleik á árunum 2007-13.
Pogba gekk aftur í raðir Juventus frá Manchester United í sumar. Hann er frá vegna meiðsla og óvíst er hvort hann spili með Juventus áður en HM í Katar hefst í nóvember.