Hákon Daði sleit krossband í hné í desember á síðasta ári og verður að segjast að bati hans hefur verið einkar skjótur. Hornamaðurinn staðfesti í stuttu spjalli við handbolti.is að hann væri að stefna á að snúa aftur eftir aðeins eina til tvær vikur. Vonast hann til að mega byrja þá „á fullu í handboltanum og vera útskrifaður af þessum meiðslum.“
Hákon Daði gekkst undir aðgerð stuttu eftir meiðslin og virðist sem endurhæfingin hafi gengið nær fullkomlega upp. Ljóst er að um mikinn liðsstyrk væri að ræða fyrir lærisveina Guðjóns Vals Sigurðssonar en liðið á erfitt verkefni fyrir höndum í vetur.
Hákon Daði gekk í raðir Gummersbach á síðasta ári eftir að hafa farið mikinn með Haukum og ÍBV í Olís-deild karla undanfarin ár. Hann var meðal markahæstu leikmanna deildarinnar þegar hann sleit en skömmu áður hafði hann verið valinn í leikmannahóp Íslands sem fór á Evrópumótið í Ungverjalandi síðastliðinn janúar.
Hákon Daði er samningsbundinn Gummersbach til sumarsins 2024 og stefnir eflaust á að aðstoða liðið eftir bestu getu í deild þeirra bestu í Þýskalandi.