Innlent

Áminntur vegna ummæla sinna um hælisleitendur og samkynhneigða

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Ríkissaksóknari hefur ekki tjáð sig um ummæli Helga Magnúsar þar til nú.
Ríkissaksóknari hefur ekki tjáð sig um ummæli Helga Magnúsar þar til nú. vísir/vilhelm

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari hefur verið áminntur af Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaskóknara vegna ummæla hans um hælisleitendur og samkynhneigða karlmenn.

„Auðvitað ljúga þeir. Flestir koma í von um meiri pening og betra líf. Hver lýgur sér ekki til bjargar? Þar fyrir utan er einhver skortur á hommum á Íslandi?,“ skrifaði Helgi á Facebook við umfjöllun fréttastofu um upplifun hinsegin hælisleitanda af því að vera sakaður um að ljúga til um kynhneigð sína. 

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari og yfirmaður Helga hefur ekki viljað tjá sig um málið við fjölmiðla, þar til nú. Í svari við fyrirspurn fréttastofu segist Sigríður hafa áminnt Helga í gær, fimmtudag, vegna ummælanna. Mbl.is greindi fyrst frá. 

Áminning Sigríðar er reist á því að ummæli Helga hafi „varpað rýrð á störf hans sem vararíkissaksóknari, á embætti ríkissaksóknara og ákæruvaldið almennt,“ og vísar hún til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ummælin hafi grafið undan virðingu og trausti til embættis ríkissaksóknara og ákæruvaldsins

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari.vísir/vilhelm

„Hér ber að undirstrika að vararíkissaksóknari er staðgengill ríkissaksóknara sem er æðsti handhafi ákæruvalds hér á landi. Vararíkissaksóknara ber því að vera öðrum ákærendum fyrirmynd í allri sinni framgöngu,“ segir í svari Sigríðar.

Í kjölfar ummælanna sagði Helgi Magnús að sér þyki vænt um samkynhneigða en ekki megi gera ráð fyrir að allir segðu satt til um kynhneigð sína. Skaðinn var þó skeður enda vöktu ummælin hörð viðbrögð. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði ummæli Helga slá sig illa og Samtökin '78 kærðu vararíkissaksóknarann til lögreglu þar sem þau telja ummælin falla undir hatursorðræðu. 

Sigríður áréttir að lokum að áminningin varði einungis háttsemi vararíkissaksóknara utan starfs en „ekki störf hans sem vararíkissaksóknari sem engar athugasemdir hafa verið gerðar við.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×