Þetta staðfestir Jens Garðar Hauksson, framkvæmdastjóri Laxa-fiskeldis, í samtali við fréttastofu. Hann segir að allt hafi gengið samkvæmt áætlun.
„Pramminn er ekki kominn á flot en var hífður upp og það er verið að sigla með hann inn í höfn á Reyðarfirði þar sem hann verður tæmdur af fóðri og í framhaldinu fleytt,“ segir Jens.
Allt hafi gengið vel, veðrið hafi unnið með framkvæmdaaðilum og áætlanir sem Köfunarþjónustan hafi gert hafi gengið eftir.
Fóðurpramminn sökk í Reyðarfirði í janúar 2021 í miklu aftakaveðri. Pramminn sá um að fóðra um sextán fiskeldissjókvíar á svæðinu og hlaust mikið tjón af því þegar hann sökk.
Kranapramminn Tronds Lift 8 var notaður til að hífa fóðurprammann upp en hann kemur frá Haugasundi í Noregi. Níu kafarar frá Köfunarþjónustunni voru með í för en þeir bjuggu fóðurprammann undir lyftinguna.
Jens segir að fóðrinu verði dælt úr prammanum við höfnina næstu daga áður en hann verður settur á flot.
„Það er erfitt að segja til um hvenær það verður en vonandi í þarnæstu viku. Það veltur á hversu vel eða illa farinn hann er og hvað þarf að gera miklar viðgerðir á honum áður en hægt er að koma honum á flot,“ segir Jens.
Verkið er unnið í samráði við Fjarðabyggðarhafnir og Umhverfisstofnun.