Skriðuklaustur er skemmtilegt menningar- og sögustaður á fornfrægu stórbýli. Þar var munkaklaustur af Ágústínusarreglu frá 1493 til 1552 en Skriðuklaustur var síðasta klaustrið, sem stofnað var á Íslandi að kaþólskum sið.
Þó að það sé fróðlegt og gaman að ganga um safnið og skoða það allt í bak og fyrir þá eru ótrúlega skemmtilegt að setja á sig sýndarveruleikagleraugun og kíkja inn í klaustrið á staðnum og sjá hvernig byggingarnar voru.
„Þetta gefur fólki allt aðra sýn og vídd á landið. Það skiptir heilmiklu máli til að vekja áhuga á fortíðinni. Þetta er svona ein af þeim nýjungum, sem við erum að reyna að vera með hér,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Skriðuklausturs.

Hann segir safnið alltaf vinsælt.
„Já, já, það er stöðugur fjöldi hér, bæði af innlendum og erlendum gestum. Það er búið að vera sérstaklega mikið af Íslendingum síðustu tvö sumur, sem var ánægjulegt að sjá aftur.“
Klausturkaffi er líka mjög vinsæll veitingastaður á Skriðuklaustri því þar svigna borðin undan veitingum og mikið um að hópar komi þangað sérstaklega til að borða.
„Velkomin í Skriðuklaustur og hér í Fljótsdalinn, það er margt að skoða hérna fyrir austan,“ segir Skúli Gunnar alsæll með safnið og gestaganginn þar.
