Í dag greindi Ríkisútvarpið frá því að stéttarfélagið Efling hafi ekki staðið skil á skatt- og lífeyrisgreiðslum starfsmanna sinna síðustu tvo mánuði þrátt fyrir að gjöldin hafi verið dregin af launum starfsfólks. Greiðslur frá núverandi jafnt sem fyrrverandi starfsmönnum félagsins höfðu ekki skilað sér til Skattsins eða lífeyrissjóða.
Átti þetta sér stað í kjölfar þess að fjármálastjóri Eflingar hætti störfum í byrjun júní og var verkefnum hans útvistað til bókhaldsfyrirtækis.
Þetta uppgötvaðist í gær þegar fyrrverandi starfsmaður Eflingar sem enn fær greiddan uppsagnarfrest fékk ábendingu frá fyrrverandi samstarfsfélaga að ekki væri búið að borga inn á aukalífeyrissparnaðinn hennar.
Fljótt að berast á milli manna
Fólkið sem starfaði áður hjá Eflingu en var sagt upp í hópuppsögninni stóru í apríl á þessu ári er mjög náið. Fregnirnar voru því fljótar að berast á milli manna og í ljós kom að enginn hafði fengið greitt í lífeyrissjóð sinn og greiðslur af laununum hefðu heldur ekki borist til Skattsins.
Starfsmaðurinn fyrrverandi segir þó að nú sé búið að greiða skattinn hennar en hún getur ekki staðfest að búið sé að gera það hjá öllum.
Enn ein þversögnin
Inga Þóra Haraldsdóttir, einnig fyrrverandi starfsmaður Eflingar, segir þetta mál vera enn ein þversögnin í málefnum Eflingar síðan Sólveig Anna Jónsdóttir tók aftur við sem formaður. Þetta mál gæti þó dregið dilk á eftir sér fyrir starfsfólkið.
„Það sem er líka að hafa áhrif á þetta starfsfólk og fyrrverandi starfsfólk er að lífeyrissjóðsgreiðslurnar hafa ekki borist, þá sérstaklega séreignarsparnaðargreiðslurnar, sem hefur auðvitað áhrif á vextina hjá fólki,“ segir Inga í samtali við fréttastofu.