Blikakonur hafa verið á mikilli siglingu en liðið hafði unnið fimm leiki í röð fyrir þann í kvöld, með markatöluna 19-1. Keflavík hafði hins vegar tapað fjórum af fimm leikjum fyrir kvöldið og sat í sjöunda sæti deildarinnar með tíu stig.
Keflavík hefur reynst ákveðin grýla fyrir Blikakonur sem höfðu spilað þrjá leiki í röð við Suðurnesjakonur án þess að sigra.
Það tók Blikakonur töluverðan tíma að brjóta ísinn en þar var að verki Clara Sigurðardóttir sem skoraði nánast frá marklínu í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir góðan undirbúning Birtu Georgsdóttur á hægri kantinum.
Birta var aftur á ferðinni þegar níu mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum en þá skallaði hún fyrirgjöf Áslaugar Mundu Gunnlaugsdóttur frá vinstri í netið. Sjö mínútum síðar, á 61. mínútu, skoraði Agla María Albertsdóttir sitt annað mark í jafnmörgum leikjum frá því að hún sneri aftur til Blika eftir skammvinna dvöl í Svíþjóð.
Leiknum lauk 3-0 Blikakonum í vil en liðið er þá með 27 stig í öðru sæti deildarinnar, aðeins tveimur á eftir toppliði Vals. Keflavík er sem fyrr með tíu stig í sjöunda sæti, þremur frá fallsæti.