Guðmundur Andri, stundum kallaður Gandri, skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri Vals gegn FH-ingum og hefur þar með skorað fjögur mörk í sumar.
FH-ingar eru nú í enn verri stöðu en áður, með 11 stig eftir 15 leiki og aðeins stigi fyrir ofan Leikni sem er í fallsæti og á leik til góða. Valur er hins vegar í 5. sæti með 24 stig og blandaði sér í baráttuna um Evrópusæti.
Tiago skoraði tvö glæsileg mörk fyrir Fram, með sitt hvorum fætinum, í 2-2 jafnteflinu gegn Stjörnunni í Úlfarsárdal.
Emil Atlason hafði komið Stjörnunni yfir á 4. mínútu, með sínu tíunda marki í sumar, en Tiago jafnaði strax metin og nýtti sér svo slæm mistök Þórarins Inga Valdimarssonar til að koma Fram í 2-1 þegar enn var aðeins korter liðið af leiknum.
Það var svo Guðmundur Baldvin Nökkvason sem jafnaði metin á 84. mínútu, með stórglæsilegu skallamarki, eftir hornspyrnu Óskars Arnar Haukssonar. Þetta var annað mark hins 18 ára Guðmundar Nökkva í sumar.
Mark Guðmundar Nökkva dugði til að halda Stjörnunni einu stigi fyrir ofan Val í 4. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir KA sem er í 3. sæti. Fram er í 8. sæti með 18 stig líkt og Keflavík sem er sæti ofar, þremur stigum á eftir KR.
Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.