Innlent

Ó­ljóst hvort brúin við Jökuls­á standi af sér vatns­flauminn

Eiður Þór Árnason skrifar
Vel verður fylgst með bráðabirgðabrúnni við Jökulsá á Sólheimasandi.
Vel verður fylgst með bráðabirgðabrúnni við Jökulsá á Sólheimasandi. Vegagerðin

Búast má við miklum vatnavöxtum á sunnanverðu landinu í dag vegna mikillar rigningar og er óljóst hvort bráðabirgðabrú við Jökulsá á Sólheimasandi standi af sér vatnsflauminn.

Búist er við gífurlegri úrkomu víða undir Eyjafjöllum og á sunnanverðum jöklum á svæðinu og Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland, Suðausturland og miðhálendi vegna mikillar rigningar. Fram kemur á vef Vegagerðarinnar að hún verði með eftirlit með brúm og vegum á hringveginum vegna þessa.

Unnið er að smíði nýrrar brúar við Jökulsá á Sólheimasandi og á meðan er umferð beint um hjáleið og bráðabirgðabrú. Í gær hóf Vegagerðin að dýpka farveginn undir brúnni og undirbúa aðrar aðgerðir með það að markmiði að verja bráðabirgðabrúna. Komi til þess að bráðabirgðabrúnni sé hætta búin verður umferð á Hringvegi um Jökulsá á Sólheimasandi fyrir austan Skóga hleypt á nýju brúna sem er ekki fullgerð.

Vegagerðin og Veðurstofan benda vegfarendum sem eiga leið um óbrúaðar ár á að endurskoða ferðaáætlanir sínar þar sem líklegt sé að þær verði mjög erfiðar yfirferðar eða ófærar með öllu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×