Snorri Steinn Sigurðsson, varaformaður félags leiðsögumanna, segir ástandið á helstu ferðamannastöðum landsins vera hreint ógeðslegt. Ruslatunnur séu yfirfullar og rusl út um allt. Þá gangi ferðamenn örna sinna bak við klósettskúra enda séu þeir oft læstir eða of skítugir til að nota.
Hann ræddi ástandið á ferðamannastöðum í Reykjavík síðdegis í gær:
„Miðað við hvernig þetta hefur verið, um leið og það kemur meiri ferðamennska þá fylgir auðvitað meiri sóðaskapur, en þetta hefur verið óvenjuslæmt í sumar,“ segir Snorri Steinn.
Hann segir að ástandið sé verra en áður en ferðamennskan lagðist nánast af þegar heimsfaraldur kórónuveirunnar var sem verstur.
Þá sé ástandið verst á fjölförnustu stöðunum, til dæmis við Gullfoss og Geysi, Suðurströndina, Seljalandsfoss og Skógafoss. „Ef maður kemur, eins ég núna, upp á hálendi þá er ekki mikið um sóðaskap þar. Þar er ekki mikið af fólki og þeir sem koma þar eru umhverfissinnar,“ segir Snorri Steinn.
Hann segir að nauðsynlegt sé að sjá betur um náttúruperlur landsins og að stjórnvöld verði að beita sér í málaflokknum. „Hvern langar að skoða foss ef það eru hundrað og fimmtíu skeinipappírar fyrir framan þig?“ spyr Snorri Steinn.