Rússar halda áfram að skjóta eldflaugum á almenning í borgum víðs vegar annars staðar í Úkraínu en í Donbas þar sem hörðustu bardagarnir hafa verið undanfarnar vikur. Í dag skutu þeir eldflaug frá kafbáti á Svartahafi á Vinnytsia eina fjölmennustu borg Úkraínu.

Talsmenn Úkraínustjórnar segja eldflaugina hafa lent á skrifstofubyggingu og rústað nærliggjandi íbúðarhúsnæði. Staðfest er að tutugu og einn hafi fallið, um eða yfir hundrað særst og fjörutíu og tveggja er saknað. Þrjú börn létust í árásinni.
Rússar hafa ekki gengist formlega við árásinni en yfirmaður ríkissjónvarpsstöðvarinnar RT hafði það eftir yfirmönnum í hernum á skilaboðaappi sínu að eldflauginni hafi verið miðað að byggingu þar sem úkraínskir nasistar hefðu verið. Zelenskyy Úkraínuforseti segir Rússa vísvitandi hafa ráðist á almenna borgara í árásinni.
Rússar skutu einnig eldflaugum að borginni Mykolaiv í suðurhluta Úkraínu í dag þar sem að minnsta kosti einn maður féll og fjöldi særðist. Borgin liggur á milli Mariupol í austri og Odessa í vestri og hafa Rússar ítrekað reynt að ná henni á sitt vald. Það myndi auðvelda þeim landhernað gegn Odessa en komist Rússar alla leið þangað hafa þeir lagt alla suðurströnd Úkraínu undir sig.