Íslenski boltinn

Gummi Tyrfings mætti á rútunni aftur á Selfoss

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðmundur Tyrfingsson er kominn aftur á Selfoss.
Guðmundur Tyrfingsson er kominn aftur á Selfoss. UMFS/Arnar Helgi

Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Tyrfingsson skrifað í dag undir tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt, Selfoss. Guðmundur mætti að sjálfsögðu á grænni rútu frá afa sínum.

Leikmaðurinn gengur aftir í raðir Selfyssinga eftir tveggja ára veru hjá ÍA á Akranesi. Guðmundur er fæddur og uppalinn Selfyssingur og þar steig hann sín fyrstu skref í meistaraflokksbolta.

Selfyssingar kynntu Guðmund til leiks á skemmtilegan hátt, en eins og nafnið gefur til kynna er hann nátengdur inn í rútufyrirtækið Guðmund Tyrfingsson, GTS ehf.

Leikmaðurinn mætti að sjálfsögðu á Jáverk-völlinn á skærgrænni rútu frá afa sínum.

„Ég er virkilega spenntur fyrir því að vera kominn heim á Selfoss og fá að klæðast vínrauðu treyjunni á nýjan leik. Það eru spennandi hlutir að gerast á Selfossi sem sýnir sig best í stöðutöflunni í Lengjudeildinni,“ sagði Guðmundur við undirskriftina.

Selfyssingar sitja sem stendur í öðru sæti Lengjudeildarinnar með 21 stig eftir 11 leiki, líkt og Fylkir sem trónir á toppnum. Selfyssingar eru því í harðri baráttu um sæti í deild þeirra bestu, en þar hefur liðið ekki leikið síðan árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×