
Rússar eru við það að ná yfirráðum yfir öllu Luhansk héraði þar sem síðasta vígið er borgin Lysychansk en Úkraínumenn ráða enn yfir um helmingi Donetsk héraðs. Lysychansk er nánast algerlega umkringd Rússum sem mistókst þó að ráðast inn í borgina í gær.

Sumir binda enn vonir við að finna ástvini sina á lífi, eða að minnsta kosti líkamsleifar þeirra, í rústum verslunarmiðstöðvar sem Rússar sprengdu í loft upp meðeldflaug í Kremenchuk á mánudag. Að minnsta kosti átján óbreyttir borgarar létust, um sextíu særðust og tuttugu er saknað. Oleksandr Baybuza leitar að mági sínum en síðast var vitað af honum við störf í verslunarmiðstöðinni á mánudag.
„Allir vona að hann sé á lífi, að hann sé særður einhvers staðar. Við missum aldrei vonina og bíðum eftir góðum fréttum. Við vonum að hann sé á lífi," segir Baybuza þar sem hann stendur ásamt fleirum sem eiga um sárt að binda við rústirnar. Möguleikarnir að finna einhvern á lífi eru engir.

Putin Rússlandsforseti heldur hins vegar áfram að þræta fyrir árásir á borgarleg skotmörk þrátt fyrir ógrynni sönnunargagna um hið gagnstæða, bæði í Kremenchuk sem og annars staðar í Úkraínu.
„Rússneski herinn gerir ekki árásir á borgaraleg skotmörk. Við þurfum þess ekki. Við vitum vel um staðsetningu skotmarka og með nákvæmum, langdrægum vopnum hæfum við þau. En auðvitað fæ ég nákvæmari upplýsingar við komuna til Moskvu,“ sagði Putin eftir leiðtogafund ríkja við Kaspíahaf í Turkmenistan í gær.

Aðildarríki NATO hétu Úkraínumönnum enn frekari hernaðarstuðningi á leiðtogafundi i Madrid í gær. Liz Truss utanríkisráðherra Bretlands segir Breta ætla að auka hernaðaraðstoðina um einn milljarð punda.
„Við þurfum að halda ótrauð áfram, halda áfram að styðja Úkraínu, viðhalda refsiaðgerðunum gagnvart Rússum og hunsa orðræðu Vladimirs Pútíns. Hið eina sem skiptir máli er það sem gerist á vígvellinum,“ sagði Truss í Madrid í dag.