Frestur til að gera athugasemdir og senda inn tillögur til dómsmálaráðuneytisins um það sem betur má fara í lögunum rennur út á morgun.
Í samráðsgátt stjórnvalda er sérstaklega tekið fram að nauðsynlegt sé að gera breytingar á ákvæðum laganna um hæfi kjörstjórna og kjörstjóra.
Ný kosningalög tóku gildi um áramótin. Í 18. grein laganna, þar sem kveður á um hæfi kjörstjórnarmanna, segir að fulltrúi í kjörstjórn teljist vanhæfur og beri að víkja sæti ef ...
Maki kjörstjórnarmanns, sambúðarmaki, fyrrverandi sambúðarmaki eða skyldur eða mægður honum í beinan legg eða skyldur eða mægður honum að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti vegna ættleiðingar.
Þetta varð til þess að kjörstjórnir víða um land lentu í stökustu vandræðum með að manna kjörstjórnir, líkt og fjallað var um á Vísi í aðdraganda kosninganna. Átti þetta sérstaklega við í minni sveitarfélögum.

Þannig þurfti reynslumiklir kjörstjórnarmenn að víkja. Á Akranesi þurfti til dæmis allir aðalmenn í kjörstjórn að víkja sæti vegna fyrrgreindra tengsla við frambjóðendur.
Sem fyrr segir er talið nauðsynlegt að bregðast við þessu og er stefnt að því að gera breytingar á kosningalögunum. Frestur til að gera athugasemd eða senda inn tillögu rennur út á morgun.
Nú þegar hafa þrettán athugasemdir borist, þar á meðal frá yfirkjörstjórn Akureyrar þar sem því er fagnað að til standi að breyta ákvæðinu um hæfi kjörstjórna.
Í umsögn sveitarfélagsins Fjarðarbyggðar, sem byggð er á ábendingum frá yfirkjörstjórn sveitarfélagsins, segir að líklega hafi það komið öllum á óvart hversi margir urðu vanhæfir vegna umrædds ákvæðis. Í Fjarðarbyggð hafi um 42 prósent af aðal- og varamönnum verið vanhæf, þar af fimm af átta formönnum kjörstjórna.
Senda má inn umsögn í gegnum samráðsgátt stjórnvalda. Fresturinn rennur sem fyrr segir út á morgun.