Körfubolti

Shaq vill kaupa Orlando Magic

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shaquille O'Neal var frábær körfuboltamaður en hefur líka blómstrað í viðskiptaheiminum.
Shaquille O'Neal var frábær körfuboltamaður en hefur líka blómstrað í viðskiptaheiminum. AP/Steve Marcus

Shaquille O'Neal kom eins og stormsveipur inn í NBA-deildina þegar Orlando Magic valdi hann í nýliðavalinu 1992. Nú vill kappinn eignast félagið sem gerði hann að stórstjörnu á tíunda áratug síðustu aldar.

O'Neal er einn besti miðherji í sögu NBA-deildarinnar og varð fjórum sinnum NBA-meistari þar af þrisvar sinnum með Los Angeles Lakers.

Shaq hefur gert frábæra hluti í heimi viðskiptanna eftir að körfuboltaferlinum lauk.

Í dag á hann fjörutíu líkamsræktarstöðvar og 150 bílaþvottastöðvar auk þess að eiga 155 Five Guys hamborgarastaði. Hann á líka sautján Auntie Anne saltkringlustaði og níu Papa John pizzastaði.

Nú vill Shaq eignast körfuboltalið og þá sérstaklega lið Orlando Magic.

Hann beindi orðum sínum til núverandi eiganda Magic liðsins í hlaðvarpsþættinum sínum „The Big Podcast with Shaq“ en félagið er í eigu DeVos fjölskyldunnar.

„Ef DeVos fjölskyldan vill selja okkur félagið þá erum við klárir í það að kaupa það núna,“ sagði Shaquille O'Neal og við voru hann og gestur hans í þættinum sem var Dennis Scott sem lék með honum hjá Orlando Magic frá 1992 til 1996.

„Ef að þið eruð tilbúin að selja Orlando Magic, seljið þá félagið til einhvers sem getur farið með þann enn lengra. Það erum við. Við höfum peninga í þetta ekki hafa áhyggjur af því,“ sagði Shaq.

Shaquille O'Neal var með 27,2 stig og 12,5 fráköst að meðaltali á fjórum tímabilum sínum með Orlando Magic og fór alla leið í lokaúrslitin með liðinu árið 1995. Því hefur félagið aðeins einu sinni náð aftur.

Shaq fór til Los Angeles Lakers árið 1996 og lék þar í átta tímabil.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×