Í fréttum Stöðvar 2 voru sýndar myndir frá framkvæmdum sem Íslenskir aðalverktakar hófu haustið 2020, annars vegar á kafla ofan Flókalundar og hinsvegar á kafla í botni Arnarfjarðar.
Fyrir tveimur árum voru sjötíu kílómetrar ómalbikaðir milli Flókalundar og Þingeyrar og var þetta þá einn lengsti samfelldi malarkaflinn á þjóðvegakerfi landsins. Dýrafjarðargöng styttu Vestfjarðahringinn um 27 kílómetra fyrir nærri tveimur árum en með þeim hætti 33 kílómetra malarkafli milli Þingeyrar og Mjólkár um Hrafnseyrarheiði að vera hluti Vestfjarðavegar.

Síðastliðið haust var fyrra lag klæðningar lagt á rúma fjóra kílómetra í Dynjandisvogi og efra lagið kom svo á um helgina.
Og núna getur vegfarendur á leið um Vestfirði fagnað enn einum vegarbótunum. Klæðningarflokkur Borgarverks, undirverktaka Íslenskra aðalverktaka, lauk á föstudag að leggja síðari umferð bundins slitlags á fjögurra kílómetra kafla úr Vatnsfirði og upp á Dynjandisheiði um svokallaðan Pennusneiðing og var vegarkaflinn sópaður í gær og síðan opnaður.

Fyrir verslunarmannahelgi er svo vonast til að aðrir fjórir kílómetrar slitlags bætist við í framhaldinu, á kafla sem nær norður fyrir Bíldudalsgatnamót í Helluskarði að Norðdalsá. Það er þó ekki öruggt að það náist að klæða allan kaflann fyrir þá tímasetningu, að sögn Bjarka Laxdals, verkstjóra ÍAV.
Framundan er svo einn stærsti verkþátturinn í endurbótum þjóðvegarins um Dynjandisheiði en tilboð í þrettán kílómetra kafla um háheiðina verða opnuð í næstu viku. Sá kafli á að vera tilbúinn með bundnu slitlagi eftir tvö ár.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: