RÚV greindi frá þessu í dag en þar er haft eftir Jónasi Hallgrímssyni, hjá lögreglunni á Vesturlandi, að skýrslur hafi verið teknar af tveimur sakborningum. Hann vildi ekki staðfesta hvort það væru listakonurnar Bryndís Björnsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir en þær höfðu komið styttunni fyrir í eldflaug á skotpalli fyrir utan Nýlistasafnið í Reykjavík.
„Breytist vonandi í geimrusl“
Bronsstyttuna gerði Ásmundur Sveinsson árið 1939 en hún ber heitið Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku. Afsteypu hennar var síðan komið fyrir á Laugarbrekku á Snæfellsnesi árið 2000. Listakonurnar segja að um rasíska styttu sé að ræða sem beri helst að skjóta á brott út í geim. Þær nefndu gjörninginn Farangursheimild: Fyrsta hvíta móðirin í geimnum.
„Við fögnum því að þetta rasíska verk sé loksins komið af stalli sínum og komið á sinn rétta stað inn í geimflauginni á leiðinni út í geiminn. Henni verður skotið upp og vonandi breytist hún þar í geimrusl sem flýgur í kringum jörðina,“ sagði Steinunn í kvöldfréttum Stöðvar 2 í apríl.
Þær telja engan vafa um að rasískt verk sé að ræða og segja ádeiluna réttlæta stuldinn.
„Það er ekki hægt að líta fram hjá því, enda er það líka árið 1939 sem verkið er sett upp og við vitum á hvaða tímapunkti það er og við vitum á hvaða stefnu Ísland tók á þeim tímapunkti gagnvart flóttamönnum af gyðingaættum,“ sagði Bryndís í sama viðtali.