Saksóknarar í Bretlandi hafa veitt lögreglunni þessa ákæruheimild eftir að hafa farið yfir sönnunargögn sem lögreglan safnaði saman við rannsókn málsins.
Hin meintu brot áttu sér stað sumarið 1996 gagnvart ónafngreindri konu sem nú er á fimmtugsaldri.
Rúmt ár er síðan Weinstein var sakfelldur fyrir fjölda kynferðisbrota og dæmdur í 23 ára fangelsi í Bandaríkjunum.
Weinstein var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn tveimur konum en sex konur báru vitni í réttarhöldunum yfir honum.
Tugir kvenna hafa stigið fram undanfarin ár og sakað Weinstein um kynferðisofbeldi eða áreitni. Lang flestar þeirra starfa eða störfuðu í kvikmyndageiranum í Hollywood og hefur fjöldi kvenna haldið því fram að erfitt hafi verið að komast áfram í Hollywood án þess að verða á vegi Weinstein. Hann hafi iðulega notfært sér valdastöðu sína til þess að brjóta á konum.
Weinstein, sem lengi var einn valdamesti maður Hollywood, hefur ítrekað haldið fram sakleysi sínu. Lögmenn hans sögðu í réttarhöldunum í fyrra að kynferðislegt samband Weinstein og kvennanna sem hafa sakað hann um kynferðisbrot hafi verið með þeirra samþykki.