Afhending nýrra vopna til Kænugarðs sé einungis ætlað að „draga stríðið á langinn eins lengi og mögulegt er,“ segir Pútín í viðtali við sjónvarpsstöðina Rossija-1.
Berist sendingar Bandaríkjamanna af langdrægnum eldflaugum til Kænugarðs muni Rússland komast að „ásættanlegri niðurstöðu“ og nota sín eigin vopn, sem landið eigi nóg af, til að ráðast á þau „mannvirki“ sem herinn hefur ekki enn beint sjónum sínum að, segir Pútin.
Þess má geta að fyrr í dag flutti CNN fréttir af því að eldflaug Rússa hafi flogið ískyggilega nálægt úkraínsku kjarnorkuveri.
Viðbragð við yfirlýsingu Biden
Yfirlýsing Pútín kemur í kjölfar greinar Joe Biden Bandaríkjaforseta sem birtist í New York Times í síðustu viku. Þar sagði Biden að markmið Bandaríkjanna væri að tryggja lýðræðislega, fullvalda og stönduga Úkraínu.
Af þeim sökum myndu Bandaríkjamenn leitast við að sjá Úkraínu fyrir vopnum, til að styrkja stöðu þeirra á framlínunni og við samningaborðið.
Þess vegna hafi Bandaríkin ákveðið að senda Úkraínu háþróuð eldflaugakerfi auk áframhaldandi sendinga af skriðdrekabönum, loftvarnakerfum, stórskotabúnaði, drónum og fleiru.