Landsréttur sneri í síðustu viku við niðurstöðu héraðsdóms í máli Þóru gegn Íslensku óperunni, Þóru í vil. Þóra, sem er ein fremsta óperusöngkona þjóðarinnar, höfðaði málið vegna greiðslu vangoldinna launa.
Í málinu var deilt um hvort kjarasamningur Félags íslenskra hljómlistamanna skyldi gilda um atriði er varða laungareiðslur og yfirvinnu. Þóra gerði verktakasamning við óperuna fyrir hlutverk hennar í uppsetningu á Brúðkaupi Fígarós.
Óperan hafnaði hins vegar að fara eftir ákvæðum kjarasamnings FÍH við uppgjör launa vegna yfirvinnu og fór málið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Héraðsdómur dæmdi Íslensku óperunni í vil en Landsréttur sneri þeim dómi við.
Fram kemur í tilkynningu frá stjórn Íslensku óperunnar að hún hafi átt frumkvæði að því að bjóða fulltrúum söngvara til samtals um hvernig nálgun í samningagerð við söngvara verði best komið í framtíðinni, svo ekki verði tilefni til óvissu eða ágreinings.
„Stjórnin telur afar mikilvægt að söngvarar og Íslenska óperan snúi nú bökum saman um bestu nálgunina við samningagerðina. Vonast stjórnin til þess að viðræðurnar skili farsælli niðurstöðu og samkomulagi um ráðningamál söngvara sem báðir aðilar geti verið sáttir við og byggt sameiginlega á til framtíðar,“ segir í tilkynningunni.